FRAKKLAND

“It’s not better, it’s not worse, it’s just different.” -AFS

ES og AFS!

13. febrúar 2011 | Rósa Margrét

Síðasta fimmtudag var verkfall í frakklandi svo ég var heima og ákvað að vera alveg svakalega dugleg að blogga en þá ákvað Irinja lyklalausa að koma til mín svo það varð ekkert úr því. Ég þoli ekki hvað tíminn líður hratt og maður nær aldrei að gera neitt sem maður ætlar sér! Ef þið eruð að velta fyrir ykkur afhverju það hafi verið verkfall þá hreinlega bara veit ég það ekki, þau hafa þetta of oft til að gefa ástæður.

Ég hef þó ýmisslegt að segja þar sem ég skipti um bekk á þriðjudaginn, ekkert meira franskar bókmenntir og beinargrinda dans heldur er það félags- og hagfræðibraut með hokkí í skautahöllinni alla mánudaga!

Ástæðan fyrir að ég skipti um bekk er margföld, ég nenni ekki að fara að telja allt um hér en í stuttu máli er 1ére L voðalega lokaður bekkur og svo langaði okkur skiptinemunum líka aðeins að sleppa takinu til þess að læra frönskuna betur.

Eftir að skólinn las fallega bréfið frá okkur Irinju var strax gefið grænt ljós og Irinja var sett í 1ére ES2 og ég 1ére ES3. Ég þekkti einn strák í bekknum en vissi annars ekkert hverjir væru þar svo ég var virkilega stressuð og þorði ekki að fara inn í stofuna fyrsta daginn, það var smá vandræðalegt!

Ég dýrka nýja bekkinn minn í alla staði og þau passa rosalega mikið að ég sé aldrei ein! Ég þarf ekki að stíga meira ein eitt skref inn í skólastofuna og þá er einhver búinn að kalla nafnið mitt til að biðja mig að setjast hjá sér! Allir hafa svo mikinn áhuga á að spjalla við mig og núna er ég farin að vera þekkt fyrir manneskjan sem stoppar ekki að tala, ekki hélt ég að það myndi líka gerast þegar umræðurnar fara fram á frönsku!

Ég skil ekki afhverju ég var ekki löngu löngu búin að skipta um bekk þar sem það er svo ótrúlega stór munur á þessum bekkjum, í gamla bekknum voru sirka 18 nemendur og nánast enginn áhugaverður en í nýja bekknum mínum eru 30 krakkar og þau eru öll mjög næs! Núna er litið á mig sem enn einn unglinginn en ekki bara útlenskann skiptinema.

Ég er búin að kynnast flestum svona ágætlega, er mikið með stelpu sem heitir Charlotte, nokkrum strákum úr bekknum og svo krökkum úr öðrum bekkjum. Charlotte er búin að kynna mig fyrir fullt af vinum sínum og svo er hún búin að kenna mér helling af frönsku! hún gefur mér verkefni í tímum og heimalærdóm, hún ætlar sér að láta mig tala fullkomið og skrifa áður en ég fer heim! Það er líka stelpa sem heitir Gwendoline sem býr í sama bæ og ég svo við tökum alltaf lestina saman, hún er mjög næs líka:)

Nýju kennararnir mínir eru ágætir, ég er svoldið hrædd við enskukennarann en reyndi að þykjast kunna ekki orð í ensku þar til hann sagði við mig „so i hear that you‘re icelandic and you speak very good english“ planið mitt dó. Stærðfræðikennarinn minn er fyndinn, í fyrsta tímanum mínum var tveggja tíma stærðfræðipróf og glápti hann bara á mig með þessari yndisfallegu skeifu. Svo gerir það hann ennþá æðislegri að hann var í jakkafötum og íþróttaskóm. Hagfræðikennarinn minn er algjör snillingur, hann er frá Afríku og er þekktur fyrir að vera vinur nemendanna, í einum tímanum tók hann í hendina á mér og kyssti hana þegar ég kom í tímann og hann hefur nokkrum sinnum þóst vera með gítar og var að syngja nafnið mitt, smá vandræðalegt en hann er stórfurðulegur greyjið!

Eini tíminn sem ég á eftir að fara í eru íþróttir, ég er í svo stórum bekk að það eru tveir hópar. Það eru alltaf 3 íþróttir yfir árið og síðasta íþróttin byrjar næsta mánudag, fyrri hópurinn er í hlaupi og seinni hópurinn er í hokkí í skautahöllinni. Mér var sagt að ég mætti velja þó svo að ég var sett í hlaupahópinn. Get ekki sagt að ég sé mjög spennt fyrir að fara að hlaupa endalaust svo ég held það verði ekkert mál að skipta um hóp og gera mig að smá fífli á skautasvellinu, þarf að fara að rifja upp taktana mína!

Er farin að dissa gamla bekkinn minn, ég er ekkert dónaleg en þegar þau spyrja hvort sé betra í nýja bekknum þá segi ég bara sannleikann auðvitað, enda geta þau vel séð að núna á ég fullt af vinum og að mér líði betur. Gamli íþróttakennarinn minn ætlaði nánast að skipa mér að halda áfram með þeim í íþróttum og sagði bara að ég vildi það ekki því ég hefði engann áhuga. Þessi tegund af dansi er svo langt frá því að vera mitt fag! Ég átti að fara á danssýningu síðasta þriðjudag og í leikhús á miðvikudaginn með gamla bekknum en ég er svo góð með mig að ég beilaði á bæði, enda var ég of þreytt…eða „of þreytt“ ég er ekki viss :)

Stundataflan mín er mjög fín, ég er nánast aldrei í eyðu og byrja alltaf klukkan 8 nema mánudaga klukkan 10. Ég klára klukkan 18 þrisvar, 12 á miðvikudögum auðvitað og svo er ég svo heppin að fá frábæra föstudaga og klára klukkan 14, það er mjög sjaldgæft í frakklandi! ég er svo ótrúlega heppin að byrja svona oft klukkan 8 því þá þarf ég sko að vakna klukkan 6 á morgnanna og fara út úr húsi klukkan 7, súper!

Það sem ég hef annars verið að brasa er nú bara hitt og þetta, fór í smá verslunarferð síðustu helgi til Bourges og gisti hjá Gabriellu minni, það var rosalega fínt og var ekki að hata það að vera nánast ein í lestinni á leiðinni heim! Ég elska svo mikið að taka lestir þegar það er enginn þar :)

Eins og ég sagði var gamli bekkurinn minn ekkert sérstakur og ég hef aldrei farið í svona alvöru franskt partý svo það var komið að því að mér var boðið fyrstu helgina eftir að kynnast nýja bekknum en auðvitað þarf AFS að koma með tímasetningar á besta tíma svo ég eyddi helginni í bæ sem heitir loche þar sem við vorum á námsskeiði með skiptinemunum, nýju skiptinemunum og þeim sem eru á leiðinni út í haust. Þetta er eitthvað sem vantar í AFS á íslandi, frakkarnir sem eru á leiðinni fá að taka þátt í öllum helgunum okkar sem er mjög gaman!

Ég fékk nánast áfall þegar ég heyrði nýju skiptinemana tala frönsku en það er vegna þess að þau tala öll mjög vel! sumir tala jafn vel og við sem erum búin að vera í 5 mánuði og þau skilja allt! Annars eru þau rosa fín og það var gaman að geta bara talað strax frönsku við þau, sum af þeim voru bara að mæta í landið á föstudaginn og þrátt fyrir það var stranglega bannað að tala annað tungumál en frönsku.

Við gerðum ýmisslegt áhugavert þessa helgi og mér fannst mjög sniðugt af sjálfboðaliðunum að vekja okkur í morgun með því að labba inn í herbergin mjög rólega, þau kveiktu ekki ljósin og þau voru að syngja vögguvísu, held mér hafi aldrei liðið jafn vel við að vakna! Þó svo að 10 mínutum seinna komu þau aftur með potta og skeiðar eins og síðustu AFS helgi, það var hræðilegt!

Morgunmaturinn í morgun var eitthvað sem ég fattaði ekki en það var semsagt þannig að þau mátti ekki tala, ég hugsaði bara ókei þau eru þreytt og vilja að við höfum lágt…en það voru ekki heldur neinar skeiðar, gafflar eða hnífar. Hvað gerir maður þá? Hvernig á maður að borða morgunkornið með mjólkinni sinni? Hvernig á maður að setja nútellað á baguettið sem maður getur ekki einu sinni skorið…og svo getur maður ekki talað í þokkabót.

Þetta var gert til þess að láta okkur hugsa um það að þegar maður mætir í land sem maður þekkir ekki, getur maður lítið eða kannski ekkert tjáð sig, kannski ekki spurt um hluti svo maður verður að bjarga sér einhverja aðra leið. Einnig eru ýmiss lönd sem hafa ekki hnífapör svo hvað gerir maður þá? Mér fannst þetta mjög áhugavert en þó ennþá áhugaverðra að enginn þorði að dýfa fingrunum ofan í nutellað, eins mikið og frakkar borða af því!

Ég kynntist stelpu þarna sem er í háskóla í Tours og er að fara í prógramm fyrir 18 ára og eldri, það var mjög fynndið þegar ég var að tala við hana þá sagðist hún eiga heima í Gièvres, sama litla krummaskuði og ég…fórum þá að spjalla og hún var í sama skóla, á sömu braut og með marga sömu kennara. Enn hvað heimurinn er svo lítill! Við Irinja fengum far með mömmu hennar til Gièvres svo við slepptum við lestina í þetta skiptið, við erum lang bestu ferðavinir í heimi þar sem konan var mjög stollt að sýna okkur alla fallegu kastalana á leiðinni og ég var svo virkilega áhugasöm að ég steinsofnaði og svo stuttu síðar gerði Irinja það líka! Enda er það ekkert skrítið þar sem það er búið að vera að djöflast með okkur alla helgina og vorum vakin klukkan 7 í morgun.

Núna er ég ennþá mjög þreytt, þarf að fara að gera dótið mitt tilbúið fyrir skólann á morgun og svo að sofa, ég ætla ekki að tala neitt um fjölskyldulífið mitt í þessu bloggi þar sem það er allt frábært að frétta þar. Á laugardaginn verð ég síðan komin í 16 daga frí og fyrstu vikuna fer ég með fjölskyldunni til Strasbourg, þýskalands og fleiri staði. Ekki mikið að hata það!

Þangað til næst,
Rósa Margrét Óladóttir

Posted in Óflokkað

5 ummæli

 1. Bóel Rut.

  Haha snild að kenna þeim einhvað á íslensku :D og gott að þú kunnir vel við þig í nýja bekknum þínum :) hlakka til að lesa nýtt blogg sem verður kanski bara um ferðalagið þitt ;P

 2. Jóhanna

  Glæsilegt með bekkinn og krúttið þessi stelpa sem vill allt fyrir þig gera, alveg dásamlegt að hafa svoleiðis fyrirbæri :)
  Haha mér finnst kennararnir þínir krútt.

  Elska að lesa bloggin frá þér, þótt þau séu með sama innihaldi og bréfin - ég fæ bara ekki nóg! :)

  je t’aime ;* (google translate)

 3. Kristveig

  ó ég er svo glöð að nýji bekkurinn er svona frábær :)
  Njóttu þess sem eftir er af Frakklandi!

 4. Auður

  Svo gaman að bekkurinn þinn sé svona skemmtilegur og ekki má gleyma kennurunum haha væri alveg til í að hitta þennan afríska hann er fyndinn :D
  þú ert alltaf í fríi í skólanum, ég myndi nú ekki slá hendinni á móti þvi, en skemmtu þér vel í ferðalaginu :)

 5. Bryndís

  Mikið var það gott að þú skemmtir þér og að nýji bekkurinn sé góður :) og skemmtu þér svaka vel í þýskalandi og á þeim stöðum sem þú ert að fara til!